Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Black Adder: Þunglyndi, kvíði og depurð, önnur grein

Þunglyndi er unnt að greina í nokkrar gerðir en sameiginlegt þeim öllum er skert ánægja af lífinu. Sjálfsmynd verður iðulega fyrir skakkaföllum í þunglyndi og stundum varanlegum. Tengsl milli ADHD og þunglyndis hafa verið staðfest í rannsóknum. Nokkur taugaboðefni koma við sögu með tilliti til þess að hafa stjórn á skapi og líðan og eiga líklega hlutdeild í ýmsum þroska-, tauga- og geðröskunum . Þau helstu sem liggja undir grun eru dópamín, serótónín og norepinephrine. Áhrif þeirra og samvirkni eru ekki með fullu kunn enda um flókin tengsl að ræða.

Talið er að dópamínvirkni sé hömluð í fólki með ADHD og það sé meðal annars skýring þess að addarar sækja í meira mæli í fíkniefni en ýmsir aðrir. Þeir þurfa sæluna utan frá. Þið getið lesið um boðskiptakerfi líkamans víða, til dæmis er ágætlega fjallað um þetta á Vísindavefnum.

Merkilegt er að skoða tengsl sem vísindamenn hafa fundið eða talið sig finna milli ADHD og ýmissa heilkenna, raskana og sjúkdóma. Skrunið til dæmis niður á þessari síðu fyrirtækisins NeuroResearch Clinics og skoðið rammann um sjúkdóma og taugaboðefni þegar allt er ekki eins og það á að vera. Þetta er engin smáræðis upptalning. Ásamt ADHD, kvíða og þunglyndi eru þarna sjúkdómar á borð við sykursýki 2, offitu, átraskanir, vefjagigt, mígreni, Parkinson's, hormónatruflanir, iðraólgu, krónískan sársauka og fótaóeirð. Dópamín og fleiri taugaboðefni verða að berast á réttan hátt og hvorki má vera of mikið af þeim né of lítið, annars er voðinn vís.

Það er því hugsanlegt að þunglyndi og ADHD séu á sama "skala" , það er að segja, eigi sér skyldar eða sömu orsakir að einhverju leyti. En lífefnafræði er bara ein leið til að horfa á málin. Félagslegir þættir skipta líka máli. Börn með ADHD gera mörg hver ýmsa hluti sem valda því að annað fólk bregst illa við þeim. Endurtekin höfnun getur leitt til þunglyndis og kvíða. 

Fólk með ADHD hefur annars konar skynjun, þar á meðal tímaskynjun, en margur, og öðruvísi minni. Ef dagurinn var frábær nema rétt í restina, er það þetta "rétt í restina" sem stendur upp úr. Hvað varðar framtíðina þá er hún varla til, það er svo erfitt að sjá hana fyrir sér. Augnablikið er því ofurmikilvægt. Þessi vitneskja ætti að verða okkur hvatning til að vanda okkur sérstaklega mikið í uppeldi barna með ADHD. Að þeir fullorðnu þurfi að vanda sig mikið verður um leið gjöf ADHD barnsins til systkina og bekkjarfélaga því öll börn græða á vönduðu uppeldi.

Þess má geta að fólk með ADHD og Parkinson's glímir við röskun á tímaskynjun sem hefur verið staðfest í rannsóknum. Fólk með Huntington's sjúkdóminn virðist einnig eiga við sömu röskun að etja hvað þetta varðar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband