Reiðistjórnun - eitt gott ráð og tvö aukaráð

Fyrir hverja mínútu sem þú ert reiður glatarðu sextíu sekúndum af hamingju, segir orðatiltækið. Við vitum öll að ef við spörkum í stein þá meiðum við okkur í fætinum. Við vitum þetta en samt spörkum við í steininn - aftur og aftur. Stundum er mikilvægt að finna út af hverju fólk reiðist. Vera kann að það hafi byrgt inni reiði árum saman vegna tiltekinna atvika og þurfi að útkljá þá í sálinni til þess að geta lifað farsælu lífi. Þetta á oft við um fólk með ADHD því það fær gjarnan á sig fleiri brotsjói en ýmsir aðrir. En oft á það ekki við, það er ekki víst að reiðin eigi sér alltaf djúpar rætur.

ADHD hefur í för með sér fyrir marga að þeir upplifa hluti afar sterkt og hafa um leið litlar hömlur á viðbrögðum sínum við upplifuninni. Reiðin fær þá útrás kröftuglega, jafnvel langt umfram tilefni. Mörg okkar reiðast oftar en við vildum og segjum þá orð sem við sjáum eftir eða gerum aðra óafturkræfa hluti. Við þurfum ekki fyrst og fremst á sálgreiningu að halda heldur aðferðum til að beisla reiðina. Við þurfum góð ráð sem virka.

Nokkur slík er að finna í bókinni The Survival Guide for Kids with ADD or ADHD eftir dr. John F. Taylor.

Ráðin gagnast ekki bara börnum heldur líka fullorðnum. Hér er gott ráð úr bókinni: Ímyndaðu þér að þú eigir þín eigin sérhönnuðu umferðarljós. Þau segja til um hvernig þér líður og hvernig þú eigir að bregðast við. Ef þú ert í erfiðri aðstöðu skaltu nota umferðarljósin þín til að átta þig hvort líðan þín er græn, gul eða rauð og bregðast við í samræmi við það. Ef þú ert róleg eða rólegur og finnur fyri öryggi er líðanin GRÆNT LJÓS, það merkir að þú sért í öruggum aðstæðum og getir haldið áfram að gera það sem þú ert að gera. Ef þú finnur að þú ert að verða æst eða æstur er líðanin orðin GULT LJÓS og þá þarftu að staldra við og hægja á þér. Þetta er í lagi í augnablikinu en þú gætir misst þig ef þú heldur áfram. Andaðu djúpt og segðu við sjálfa/n þig: Ég er við stjórnvölinn. Ef þú ert orðin/n reið eða reiður skaltu hugsa: RAUTT LJÓS. Það merkir stopp, loka munninum, snúa sér við og fara.

Hér koma tvö aukaráð (ekki úr bókinni): 1. Hugsa um þig og manneskjuna sem þú ert reiður eða reið við í fyndnum aðstæðum. Húmor slær á reiði. 2. Halda dagbók yfir það þegar þú reiðist. Hverjar voru kringumstæðurnar? Hverju reiddistu? Smám saman skýrist myndin af því hvenær, hvar, hverju og hverjum þú reiðist og þá (þegar maður þekkir skrímslið persónulega) verður auðveldara að draga úr styrkleika reiðiviðbragða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband