Færsluflokkur: Menntun og skóli
Jú þú getur það víst
Fimmtudagur, 16. október 2008
Ljóðið IF eftir Rudyard Kipling er í uppáhaldi hjá mörgum, til dæmis Grétari Eir sem bloggar hér á mbl.
Tvær línur í ljóðinu eru mér sérstaklega hugleiknar núna í tengslum við krakkana okkar með ADHD. Ég segi núna af tveimur ástæðum. 1. Það eru samræmd próf í 4. og 7. bekk í dag og á morgun og þau eru kvöl og pína fyrir mörg af okkar börnum. 2. Kreppan.
Línurnar í ljóðinu hans Kiplings eru þessar:
If you can meet with triumph and disaster
and treat those two impostors just the same
Það þarf sterk bein til að þola jafnt sigra sem ósigra, góðæri og hremmingar. ADHD krakkarnir okkar eru oft illa viðbúnir því. Þeir hafa, margir hverjir, tilhneigingu til að hafa áhyggjur og fyllast kvíða.
En málið er að bæði sigurinn (triumph) og áfallið (disaster) eru svindlarar (impostors). Þeir eru að þykjast vera eitthvað annað og meira en þeir eru. Það þarf að mæta þeim með æðruleysi.
Við þurfum að kenna krökkunum okkar - og það er nú nógu erfitt fyrir okkur sjálf oft og tíðum - að eina leiða til að læra að vinna og læra að tapa - er æfingin.
Æfingin skapar meistarann. Krökkunum finnst þetta fúlt en við getum breytt því í ögrandi verkefni með því að vera skapandi. Taka Pollýönnu og horfa á hana saman í sjónvarpinu, brosa, fíflast með hvað við erum miklir asnar, gera lista yfir allt það vitlausasta sem fólki hefur dottir í hug (samræmd próf, karmellur, þið prjónið þetta áfram) og svo framvegis.
Fólk með ADHD kann suma hluti afar vel, til dæmis að vera skapandi. Við finnum leiðirnar.