Færsluflokkur: Bækur
Öfundast út í sætu stelpurnar, mótlæti og árangur
Mánudagur, 27. október 2008
Í frábærri bók Lindu Vilhjálmsdóttur, Lygasaga, er meðal annars þessi frásögn sem hér er birt örlítið stytt:
Það hafði alltaf verið mín heitasta ósk síðan í sjö ára bekk að komast í hóp sætu stelpnanna. Auðvitað voru þær ekki allar jafn sætar en þær áttu flestar vel stæða foreldra og voru öruggar og ánægðar með sig. ... Ég dáði þær og dýrkaði en ég var líka full öfundar og afbrýðisemi í þeirra garð. Frá mínum bæjardyrum séð var tilvera þeirra einföld og átakalaus. Þær fengu allt upp í hendurnar og heppnin elti þær líka á röndum. Þær stóðu sig vel í skólanum og voru auk þess bestar í öllu öðru. Þær léku aðalhlutverkin í skólaleikritunum. Þær sungu einsöng í kórnum. Þær voru valdar til að sýna fimleika og dans. Þær hlupu hraðast af öllum. Þær skoruðu öll mörkin og unnu öll verðlaunin. Ég vildi verða eins og þær en ég vildi helst ekki leggja neitt á mig til þess að svo gæti orðið. Ég skildi ekki samhengið milli ástundunar og árangurs. Ég vorkenndi sjálfri mér óskaplega ef ég þurfti að hafa eitthvað fyrir því sem ég þráði. Ég vildi allt fyrir ekkert og ég vildi það strax.Ég byrjaði í kórnum, ég byrjaði í dansi og ég byrjaði í handbolta en ég gafst alltaf upp. Ef ég varð ekki best eftir mánuð þá missti ég áhugann.
Margir geta kannast við sjálfa sig í svona lýsingum og þarf ekki ADHD til. En ef barnið þitt eða þú sjálf/ur ert með ADHD eru þessi mál enn erfiðari viðfangs. Til þess að efla þol fyrir mótlæti þarf að fara í gegnum mótlæti eða hvað? Vissulega. En mótlætið má bara ekki vera mikið ef maður er með ADHD. Hvatningin og tilfinningin fyrir hæfileikum - og fljótlega árangur - er aðalatriðið í því að byggja upp seigluna sem þarf til lifa farsælu lífi.
Það verður að hjálpa börnum með ADHD að finna eitthvað sem þau verða fljótlega frekar góð í, eitthvað sem liggur vel fyrir þeim og gefur þeim svolítið forskot á aðra. Þetta verður innistæða sem fylgir þeim allt lífið. Þegar þau byrja að hafa trú á hæfileikum sínum gengur þeim ástundunin betur, þau verða reiðubúnari að mæta á æfingar, þau seiglast - ókei, þau seiglast stundum. En nóg til þess að síðar er alltaf hægt að benda á þetta eina og segja: Þú gast þetta - þú getur líka hitt.
Ef ekkert gengur með að finna hugðarefni eða tómstundir sem henta þarf að beita brögðum. Foreldrið velur þá tómstundagaman af innsæi sínu og þekkingu á barninu, áhugasviðum þess, persónuleika og getu. Íþróttir sem byggja á grimmri samkeppni við aðra eru til dæmis oft ekki heppilegar. Næsta skref er að ræða við barnið um hvort það sé tilbúið að prófa gegn einhverju (tímabundið) - til dæmis því að fá stjörnu fyrir hverja mætingu. Svo er samið um verðlaun eftir fimm eða tíu mætingar eða aðra ástundun. Fyrsta kastið fylgist foreldrið grannt með því hvernig gengur. Ef einhver vísbending er um að sjálfsmynd barnsins bíði hnekki ber að láta það hætta strax. Barnið fær nóg af slíku í daglegu lífi eins og dóttir mín benti mér þegar rætt var um samræmdu prófin í fjórða bekk og þá möguleika sem þau fælu í sér til að æfa sig í að taka mótlæti : Það þarf ekki, ég er alltaf að því.
Allir eru góðir í einhverju - ef þeir fá stuðning til þess. Stundum þarf að hrósa meira en manni býr í brjósti og hvað er að því? ADHD börnin okkar þurfa meira hrós en önnur börn og okkar er að mæta þeirri þörf. Um leið þurfum við að vera dugleg að hrósa okkur sjálfum. Við getum þetta - alveg eins og við gátum hitt.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)