Black Adder: Þunglyndi, kvíði og depurð, þriðja grein

Eitt skref í einu er erfitt fyrir fólk með ADHD ... sem vill fá lausnina strax og helst í gær. Engu að síður er þetta atriði mikilvægur liður í að komast yfir depurð, kvíða og þunglyndi. Sandy Maynard ADHD markþjálfi leggur til að við spyrjum okkur: Hvað er það sem brýnast er að leysa til að mér líði betur? Taka svo hænuskref til að leysa vandann og fáið endilega utanaðkomandi hjálp frá fjölskyldu, vinum eða sérfræðingum.

Skiljum nú við Sandy og höldum áfram með þessa hugsun. Ef það eru til dæmis fjármál sem hvíla þyngst á þér er hægt að leita ráðgjafar í bönkum, hjá Ráðgjafarstofu heimilanna eða hjá einkaráðgjafa til að skipuleggja hvað þarf að gera til að leysa vandann. Þegar það er frá þarf að tímasetja verkin og láta vin eða ættingja fá áætlunina. Þeirra hlutverk er svo að hringja í þig og minna þig á og/eða hvetja þig til að gera það sem gera þarf. Í leiðinni er gott að biðja viðkomandi um hvatningu til að opna póstinn, sem getur verið flókið eins og margir kannast við. Seinna er hægt að endurgjalda greiðann á ýmsa lund.

Ef líðan er svo slæm að þetta er þér um megn eins og er skaltu byrja á einhverju smærra, eins og að laga þér gott kaffi, te eða ávaxtasafa klukkan átta á hverjum morgni. Þegar þér hefur tekist það ertu kominn á fætur – og þá eru þér allir vegir færir! Markmiðið er að búa til einhverja reglu í óreiðunni af því að þegar maður er þunglyndur er uppörvandi og styrkjandi að ná tökum á því að hlakka til einhvers og enn fremur ef það er af manns eigin völdum. Það eykur tiltrú þína á að þú hafir áhrif og getir breytt hlutum.

Annað sem ég hef tröllatrú á í baráttu við þunga þanka (bæði depurð og þunglyndissjúkdóminn) er auðmýkt. Ég vona að þetta gamla uppáhalds orð mitt sé að ganga í endurnýjun lífdaga nú í kreppunni, það hefur legið undir ámæli um langa hríð. Auðmýkt er ekki aumingjaskapur eða skriðdýrseðli. Þvert á móti. Það merkir virðingu fyrir öðrum til jafns við mann sjálfan, fyrir lífinu í heild, fyrir sköpunarverkinu. Auðmýkt er ekki bara fyrir kristna, búddista, múslima eða trúaða yfirhöfuð, hún er fyrir alla. Þegar fólk er þunglynt ásakar það sjálft sig en einnig heiminn (eða einhvern hluta hans). Að ásaka heiminn – er það ekki tilætlunarsemi, frekja, jafnvel hroki – andheiti auðmýktar? Heimurinn er okkur ef til vill ekki að skapi en hann er eins og hann er. Og til hvers að ásaka okkur sjálf? Við erum það sem við erum og höfum hvert og eitt okkar ýmislegt fram að færa.

Einn versti óvinur vellíðunar eru svefntruflanir. Hömluð taugaboðefni (eins og hjá fólki með AHD) geta raskað svefni - og svefnröskunin getur leitt til þunglyndis. Þetta er auðvitað bara ein af orsökum þunglyndis en líklega talsvert algeng meðal þunglyndra barna. Þá er það einnig svo að að baki þunglyndi geta legið nokkrar orsakir, ekki bara ein. Í bók sinni The ADD Answer bendir dr. Frank Lawlis á að besta leiðin til að vinna bug á svefnvanda sé hreyfing. Orkukrefjandi hreyfing ætti frekar að fara fram fyrri hluta dags eða í síðasta lagi síðdegis en hálftíma notaleg hreyfing einni til tveimur klukkustundum fyrir háttatíma hefur mikil og góð áhrif á bæði börn og fullorðna. Lawlis mælir með jóga, gönguferð eða tai chi í þessu skyni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Gunnarsdóttir

Takk fyrir mig

Kristín Gunnarsdóttir, 9.3.2009 kl. 12:51

2 Smámynd: ADHD

Takk sömuleiðis og hafðu það gott í dag, Kristín.

ADHD, 9.3.2009 kl. 13:18

3 Smámynd: Auður Proppé

Frábær skrif og athyglisverð, þakka þér kærlega fyrir.  Dóttir mín er nýgreind með ADD sem er nýtt fyrir mér svo síðan þín er alger gullmoli fyrir mig.

Auður Proppé, 11.3.2009 kl. 08:54

4 Smámynd: ADHD

Takk kærlega Auður og bestu kveðjur til litlu þinnar.

ADHD, 11.3.2009 kl. 16:13

5 identicon

ég var að finna þessa síðu og líst vel á. gott að geta lesið þanka þína. mig langar samt að spyrja þig að einu... nú á ég maka með bullandi adhd og ég er við það að gefast upp. ég er orðin svo þreytt að ég sé ekki fram á að geta meira. átt þú ráðleggingar fyrir maka sem er að kafna og er að verða búinn að týna sjálfum sér í ástandi hins? 

Ásta (IP-tala skráð) 25.3.2009 kl. 09:28

6 Smámynd: Kristín Magdalena Ágústsdóttir

Þú ert bara frábær, þetta er nauðsynleg síða. Ég er líka kennari og hef starfað sem sérkennari í nokkur ár.

En það sem þú ert að skrifa núna á bara við svo marga í dag, ekki bara AD/HD.

Það eru mjög margir sem eru að ganga í gegnum þessar tilfinningar í dag og því vert að sjá að þetta passar við fleiri líka.

Flott hjá þér.

Kristín Magdalena Ágústsdóttir, 27.3.2009 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband