Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
Black Adder: Þunglyndi, kvíði og depurð, önnur grein
Miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Þunglyndi er unnt að greina í nokkrar gerðir en sameiginlegt þeim öllum er skert ánægja af lífinu. Sjálfsmynd verður iðulega fyrir skakkaföllum í þunglyndi og stundum varanlegum. Tengsl milli ADHD og þunglyndis hafa verið staðfest í rannsóknum. Nokkur taugaboðefni koma við sögu með tilliti til þess að hafa stjórn á skapi og líðan og eiga líklega hlutdeild í ýmsum þroska-, tauga- og geðröskunum . Þau helstu sem liggja undir grun eru dópamín, serótónín og norepinephrine. Áhrif þeirra og samvirkni eru ekki með fullu kunn enda um flókin tengsl að ræða.
Talið er að dópamínvirkni sé hömluð í fólki með ADHD og það sé meðal annars skýring þess að addarar sækja í meira mæli í fíkniefni en ýmsir aðrir. Þeir þurfa sæluna utan frá. Þið getið lesið um boðskiptakerfi líkamans víða, til dæmis er ágætlega fjallað um þetta á Vísindavefnum.
Merkilegt er að skoða tengsl sem vísindamenn hafa fundið eða talið sig finna milli ADHD og ýmissa heilkenna, raskana og sjúkdóma. Skrunið til dæmis niður á þessari síðu fyrirtækisins NeuroResearch Clinics og skoðið rammann um sjúkdóma og taugaboðefni þegar allt er ekki eins og það á að vera. Þetta er engin smáræðis upptalning. Ásamt ADHD, kvíða og þunglyndi eru þarna sjúkdómar á borð við sykursýki 2, offitu, átraskanir, vefjagigt, mígreni, Parkinson's, hormónatruflanir, iðraólgu, krónískan sársauka og fótaóeirð. Dópamín og fleiri taugaboðefni verða að berast á réttan hátt og hvorki má vera of mikið af þeim né of lítið, annars er voðinn vís.
Það er því hugsanlegt að þunglyndi og ADHD séu á sama "skala" , það er að segja, eigi sér skyldar eða sömu orsakir að einhverju leyti. En lífefnafræði er bara ein leið til að horfa á málin. Félagslegir þættir skipta líka máli. Börn með ADHD gera mörg hver ýmsa hluti sem valda því að annað fólk bregst illa við þeim. Endurtekin höfnun getur leitt til þunglyndis og kvíða.
Fólk með ADHD hefur annars konar skynjun, þar á meðal tímaskynjun, en margur, og öðruvísi minni. Ef dagurinn var frábær nema rétt í restina, er það þetta "rétt í restina" sem stendur upp úr. Hvað varðar framtíðina þá er hún varla til, það er svo erfitt að sjá hana fyrir sér. Augnablikið er því ofurmikilvægt. Þessi vitneskja ætti að verða okkur hvatning til að vanda okkur sérstaklega mikið í uppeldi barna með ADHD. Að þeir fullorðnu þurfi að vanda sig mikið verður um leið gjöf ADHD barnsins til systkina og bekkjarfélaga því öll börn græða á vönduðu uppeldi.
Þess má geta að fólk með ADHD og Parkinson's glímir við röskun á tímaskynjun sem hefur verið staðfest í rannsóknum. Fólk með Huntington's sjúkdóminn virðist einnig eiga við sömu röskun að etja hvað þetta varðar.
ADHD | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Black Adder: Þunglyndi, kvíði og depurð, fyrsta grein
Föstudagur, 20. febrúar 2009
Það dugar ekkert minna en nokkrar greinar til að fjalla um þessi mál sem hrjá flesta með ADHD einhvern tímann á ævinni. Bæði af því að málið er stórt, líka af því að við Addarar höfum annað við tímann að gera en lesa langar greinar.
Margir tengja þunglyndi ekki við börn en það er algengara á barnsaldri en fólk almennt áttar sig á. Eitt barna minna greindist þunglynt sjö ára og er oft kvíðið. Það er geysilega mikilvægt að foreldrar og/eða aðrir uppalendur og umönnunaraðilar haldi þétt utan um ADHD börnin sín til að varna þessum vágestum innkomu eða að minnsta kosti lágmarka áhrif þeirra.
Hér er stiklað á stóru um það sem ég hef lært í þessari baráttu.
1. Ef okkur tekst að fyrirbyggja eða vinna bug á þunglyndinu og kvíðanum þá reynist iðulega miklu auðveldara að vinna úr þeim verkefnum sem ADHD-ið sjálft skaffar okkur. Þau verða allt í einu viðráðanleg. Okkur hlakkar til að bretta upp ermarnar!
2. Þetta getur hins vegar reynst mjög erfitt fyrir foreldra sem sjálfir eru með ADHD. Þess vegna er stuðningur ættingja, kennara barnsins, vina, íþróttaþjálfara og annarra sem láta sig barnið varða sérstaklega mikilvægur.
3. Útivera. Allir út að labba saman á hverjum degi. Fríska loftið blæs burt vondum þönkum.
4. Íþróttir. Mín börn hafa prófað boltaíþróttir, sund, jazzdans, ballett, hiphop, TaeKwonDo, badminton. Dans og austurlenskar íþróttir hafa reynst mínum börnum best, ég hef líka heyrt vel látið af fimleikum (t.d. frá Hrund hér á síðunni) og hestamennsku.
Ég hef þessar þumalfingursreglur um hvað er gott í íþróttum (og öðrum tómstundum) og hvað ekki:
Það verður að vera skemmtilegt og bjóða reglulega upp á einhverjar nýjungar (nýjan leik, æfingu, verkefni).
Barnið (eða við sjálf) verður að upplifa sig sem miðlungsgott eða betra í samanburði við hina. Addarar fá alveg næga höfnun hér og þar þótt við aukum ekki við hana í tómstundum. Fótbolti og sund reyndust dóttur minni erfið sökum samkeppni (hvort tveggja) og langra stunda þar sem hún var ekki með (fótbolti).
Það þarf hvatningu fullorðins og - þetta er mjög mikilvægt - tíða umbun. Umbun getur verið hrós þjálfara (mjög mikilvægt!), ánægja foreldris, viðurkenning jafningja, stjarna í kladdann, bíóferð með mömmu eftir góða mætingu og ástundun og svo framvegis.
Taugaboðefnið dopamine er að mati fræðimanna ekki framleitt í jafnmiklum mæli í líkama Addara og flestra annarra. Dopamine hvetur fólk til aðgerða og ýtir undir sælu og öryggistilfinningu. Addarar eru því háðari utanaðkomandi hvatningu, hrósi og staðfestingum á að allt sé í góðu gengi en margir aðrir.
Það þarf að vera hægt að sökkva sér ofan í íþróttina - líkamlega og andlega.
Í TaeKwonDo er til dæmis eitthvað að gerast, stöðugt. Ef þú kemur of seint gerirðu tíu armbeygjur en það er enginn stimpill hengdur á það, það er bara sjálfsagt og svo fær maður að fara út á völlinn og vera með. Engar skammir eftir á. Svo tekur við klukkustund með stöðugri og fjölbreytilegri hreyfingu: TaeKwonDo, teygjur, armbeygjur, boðhlaup, boltaleikir, hopp og margt fleira.
Þjálfarinn verður að vera samvinnufús. Það þarf að hrósa og það þarf að útskýra svo skiljist.
5. Aðrar tómstundir: Ég mæli með skátum, tónlist og leiklist. Eftirfarandi setningu fann ég á Netinu og er sammála henni: "The best after-school activities for a child with attention deficit hyperactivity disorder (ADHD) make good use of his time, teach essential life skills, are educational, use surplus energy, are fun, and make him feel good about himself." Í lauslegri þýðingu: Besta tómstundaiðkun fyrir barn með ADHD er sú sem nýtir tíma þess vel. kennir hluti sem er gott eða nauðsynlegt að kunna í daglegu lífi, er menntandi, gefur barninu færi á að fá góða útrás, er skemmtileg og lætur barninu líða vel með sjálft sig.
Í NÆSTU GREIN: Hvað er þunglyndi og hvernig tengist það ADHD? Tímaskynjunin og þunglyndið. Mikilvægi augnabliksins.
ADHD | Breytt s.d. kl. 12:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)