Fullorðnir: Kynlíf og ADHD

Margir makar þeirra sem eru með ADHD kvarta undan því að kynlífinu sé ekki sinnt sem skyldi í sambandinu. Helsta ástæðan er kannski sú að kynlíf krefst þess að maður sé á staðnum - í öllu tilliti.

ADHD makinn er oft með hugann við ýmislegt fleira, til að mynda að hann þurfi að lesa tölvupóstinn sinn, fara út í búð eða finna gemsann og bíllyklana. Hann er kannski óþolinmóður. Er ekki hægt að drífa í þessu?

Edward Hallowell og John J. Ratey nefna fleiri vandamál tengd ADHD og kynlífi í bók sinni Delivered from Distraction. Þar á meðal er tímastjórnun. Henni er iðulega mjög ábótavant hjá okkur með ADHD og margt kemst hreinlega ekki eða allt of sjaldan að, til að mynda kynlíf.

Í þriðja lagi gerist það í mörgum samböndum að ADHD makinn missir smám saman áhugann af því að hannupplifir hinn eins og yfirmann, sífellt að skamma, minna á, stjórna og skipuleggja. Úff, ekki gaman. Það er líka algengt að makinn sem er ekki með ADHD missi áhugann, hann er orðinn leiður á að þurfa í sífellu að ala hinn upp.

Ef töfrarnir eru horfnir vegna pirrings og reiði getur reynst vel að leita til hjónbandsráðgjafa. Báðir þurfa að fá að tala án þess að hinn grípi fram í eða rjúki burt. Að því loknu þarf að finna lausnir, um verkaskiptingu á heimilinu og ef til vill fleira. ADHD makinn er fljótur að fyrirgefa en hann er líka fljótur að gleyma ef svo ber undir. Þess vegna er gott að skrifa niður það sem ákveðið er, litskreyta það og hengja á ísskápshurðina.

Önnur vandamál geta skotið upp kollinum svo sem að makinn með ADHD vilji margfalt tíðara kynlíf en hinn er tilbúinn til að veita honum. Hvað þennan síðast talda vanda varðar getur reynst vel fyrir viðkomandi að finna sér fleiri áhugamál sem hann getur "gleymt sér" í, ásamt því að hann minnir sig á að það er ekki sanngjarnt gagnvart makanum að vera svona tilætlunarsamur.

Varðandi óþolinmæði og einnig í sambandi við tímastjórnun þá geta lyf oft hjálpað ásamt með slökun. Síðar skoðum við leiðir til slökunar fyrir fólk með ADHD, en við eigum oft og tíðum erfitt með að nýta okkur jógatíma sem skyldi, einmitt út af óþolinmæði og eirðarleysi. Við eigum líka eftir að fjalla um ýmis tæki til tímastjórnunar síðar á þessum vettvangi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Helgi Þórðarson

Dem, ég er með bullandi ADHD!

Þórður Helgi Þórðarson, 16.10.2008 kl. 13:51

2 Smámynd: ADHD

Til hamingju með það :)

ADHD, 16.10.2008 kl. 14:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband