Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
Öfundast út í sætu stelpurnar, mótlæti og árangur
Mánudagur, 27. október 2008
Í frábærri bók Lindu Vilhjálmsdóttur, Lygasaga, er meðal annars þessi frásögn sem hér er birt örlítið stytt:
Það hafði alltaf verið mín heitasta ósk síðan í sjö ára bekk að komast í hóp sætu stelpnanna. Auðvitað voru þær ekki allar jafn sætar en þær áttu flestar vel stæða foreldra og voru öruggar og ánægðar með sig. ... Ég dáði þær og dýrkaði en ég var líka full öfundar og afbrýðisemi í þeirra garð. Frá mínum bæjardyrum séð var tilvera þeirra einföld og átakalaus. Þær fengu allt upp í hendurnar og heppnin elti þær líka á röndum. Þær stóðu sig vel í skólanum og voru auk þess bestar í öllu öðru. Þær léku aðalhlutverkin í skólaleikritunum. Þær sungu einsöng í kórnum. Þær voru valdar til að sýna fimleika og dans. Þær hlupu hraðast af öllum. Þær skoruðu öll mörkin og unnu öll verðlaunin. Ég vildi verða eins og þær en ég vildi helst ekki leggja neitt á mig til þess að svo gæti orðið. Ég skildi ekki samhengið milli ástundunar og árangurs. Ég vorkenndi sjálfri mér óskaplega ef ég þurfti að hafa eitthvað fyrir því sem ég þráði. Ég vildi allt fyrir ekkert og ég vildi það strax.Ég byrjaði í kórnum, ég byrjaði í dansi og ég byrjaði í handbolta en ég gafst alltaf upp. Ef ég varð ekki best eftir mánuð þá missti ég áhugann.
Margir geta kannast við sjálfa sig í svona lýsingum og þarf ekki ADHD til. En ef barnið þitt eða þú sjálf/ur ert með ADHD eru þessi mál enn erfiðari viðfangs. Til þess að efla þol fyrir mótlæti þarf að fara í gegnum mótlæti eða hvað? Vissulega. En mótlætið má bara ekki vera mikið ef maður er með ADHD. Hvatningin og tilfinningin fyrir hæfileikum - og fljótlega árangur - er aðalatriðið í því að byggja upp seigluna sem þarf til lifa farsælu lífi.
Það verður að hjálpa börnum með ADHD að finna eitthvað sem þau verða fljótlega frekar góð í, eitthvað sem liggur vel fyrir þeim og gefur þeim svolítið forskot á aðra. Þetta verður innistæða sem fylgir þeim allt lífið. Þegar þau byrja að hafa trú á hæfileikum sínum gengur þeim ástundunin betur, þau verða reiðubúnari að mæta á æfingar, þau seiglast - ókei, þau seiglast stundum. En nóg til þess að síðar er alltaf hægt að benda á þetta eina og segja: Þú gast þetta - þú getur líka hitt.
Ef ekkert gengur með að finna hugðarefni eða tómstundir sem henta þarf að beita brögðum. Foreldrið velur þá tómstundagaman af innsæi sínu og þekkingu á barninu, áhugasviðum þess, persónuleika og getu. Íþróttir sem byggja á grimmri samkeppni við aðra eru til dæmis oft ekki heppilegar. Næsta skref er að ræða við barnið um hvort það sé tilbúið að prófa gegn einhverju (tímabundið) - til dæmis því að fá stjörnu fyrir hverja mætingu. Svo er samið um verðlaun eftir fimm eða tíu mætingar eða aðra ástundun. Fyrsta kastið fylgist foreldrið grannt með því hvernig gengur. Ef einhver vísbending er um að sjálfsmynd barnsins bíði hnekki ber að láta það hætta strax. Barnið fær nóg af slíku í daglegu lífi eins og dóttir mín benti mér þegar rætt var um samræmdu prófin í fjórða bekk og þá möguleika sem þau fælu í sér til að æfa sig í að taka mótlæti : Það þarf ekki, ég er alltaf að því.
Allir eru góðir í einhverju - ef þeir fá stuðning til þess. Stundum þarf að hrósa meira en manni býr í brjósti og hvað er að því? ADHD börnin okkar þurfa meira hrós en önnur börn og okkar er að mæta þeirri þörf. Um leið þurfum við að vera dugleg að hrósa okkur sjálfum. Við getum þetta - alveg eins og við gátum hitt.
ADHD | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jú þú getur það víst
Fimmtudagur, 16. október 2008
Ljóðið IF eftir Rudyard Kipling er í uppáhaldi hjá mörgum, til dæmis Grétari Eir sem bloggar hér á mbl.
Tvær línur í ljóðinu eru mér sérstaklega hugleiknar núna í tengslum við krakkana okkar með ADHD. Ég segi núna af tveimur ástæðum. 1. Það eru samræmd próf í 4. og 7. bekk í dag og á morgun og þau eru kvöl og pína fyrir mörg af okkar börnum. 2. Kreppan.
Línurnar í ljóðinu hans Kiplings eru þessar:
If you can meet with triumph and disaster
and treat those two impostors just the same
Það þarf sterk bein til að þola jafnt sigra sem ósigra, góðæri og hremmingar. ADHD krakkarnir okkar eru oft illa viðbúnir því. Þeir hafa, margir hverjir, tilhneigingu til að hafa áhyggjur og fyllast kvíða.
En málið er að bæði sigurinn (triumph) og áfallið (disaster) eru svindlarar (impostors). Þeir eru að þykjast vera eitthvað annað og meira en þeir eru. Það þarf að mæta þeim með æðruleysi.
Við þurfum að kenna krökkunum okkar - og það er nú nógu erfitt fyrir okkur sjálf oft og tíðum - að eina leiða til að læra að vinna og læra að tapa - er æfingin.
Æfingin skapar meistarann. Krökkunum finnst þetta fúlt en við getum breytt því í ögrandi verkefni með því að vera skapandi. Taka Pollýönnu og horfa á hana saman í sjónvarpinu, brosa, fíflast með hvað við erum miklir asnar, gera lista yfir allt það vitlausasta sem fólki hefur dottir í hug (samræmd próf, karmellur, þið prjónið þetta áfram) og svo framvegis.
Fólk með ADHD kann suma hluti afar vel, til dæmis að vera skapandi. Við finnum leiðirnar.
ADHD | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fullorðnir: Kynlíf og ADHD
Miðvikudagur, 15. október 2008
Margir makar þeirra sem eru með ADHD kvarta undan því að kynlífinu sé ekki sinnt sem skyldi í sambandinu. Helsta ástæðan er kannski sú að kynlíf krefst þess að maður sé á staðnum - í öllu tilliti.
ADHD makinn er oft með hugann við ýmislegt fleira, til að mynda að hann þurfi að lesa tölvupóstinn sinn, fara út í búð eða finna gemsann og bíllyklana. Hann er kannski óþolinmóður. Er ekki hægt að drífa í þessu?
Edward Hallowell og John J. Ratey nefna fleiri vandamál tengd ADHD og kynlífi í bók sinni Delivered from Distraction. Þar á meðal er tímastjórnun. Henni er iðulega mjög ábótavant hjá okkur með ADHD og margt kemst hreinlega ekki eða allt of sjaldan að, til að mynda kynlíf.
Í þriðja lagi gerist það í mörgum samböndum að ADHD makinn missir smám saman áhugann af því að hannupplifir hinn eins og yfirmann, sífellt að skamma, minna á, stjórna og skipuleggja. Úff, ekki gaman. Það er líka algengt að makinn sem er ekki með ADHD missi áhugann, hann er orðinn leiður á að þurfa í sífellu að ala hinn upp.
Ef töfrarnir eru horfnir vegna pirrings og reiði getur reynst vel að leita til hjónbandsráðgjafa. Báðir þurfa að fá að tala án þess að hinn grípi fram í eða rjúki burt. Að því loknu þarf að finna lausnir, um verkaskiptingu á heimilinu og ef til vill fleira. ADHD makinn er fljótur að fyrirgefa en hann er líka fljótur að gleyma ef svo ber undir. Þess vegna er gott að skrifa niður það sem ákveðið er, litskreyta það og hengja á ísskápshurðina.
Önnur vandamál geta skotið upp kollinum svo sem að makinn með ADHD vilji margfalt tíðara kynlíf en hinn er tilbúinn til að veita honum. Hvað þennan síðast talda vanda varðar getur reynst vel fyrir viðkomandi að finna sér fleiri áhugamál sem hann getur "gleymt sér" í, ásamt því að hann minnir sig á að það er ekki sanngjarnt gagnvart makanum að vera svona tilætlunarsamur.
Varðandi óþolinmæði og einnig í sambandi við tímastjórnun þá geta lyf oft hjálpað ásamt með slökun. Síðar skoðum við leiðir til slökunar fyrir fólk með ADHD, en við eigum oft og tíðum erfitt með að nýta okkur jógatíma sem skyldi, einmitt út af óþolinmæði og eirðarleysi. Við eigum líka eftir að fjalla um ýmis tæki til tímastjórnunar síðar á þessum vettvangi.
ADHD | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Reiðistjórnun - eitt gott ráð og tvö aukaráð
Mánudagur, 13. október 2008
Fyrir hverja mínútu sem þú ert reiður glatarðu sextíu sekúndum af hamingju, segir orðatiltækið. Við vitum öll að ef við spörkum í stein þá meiðum við okkur í fætinum. Við vitum þetta en samt spörkum við í steininn - aftur og aftur. Stundum er mikilvægt að finna út af hverju fólk reiðist. Vera kann að það hafi byrgt inni reiði árum saman vegna tiltekinna atvika og þurfi að útkljá þá í sálinni til þess að geta lifað farsælu lífi. Þetta á oft við um fólk með ADHD því það fær gjarnan á sig fleiri brotsjói en ýmsir aðrir. En oft á það ekki við, það er ekki víst að reiðin eigi sér alltaf djúpar rætur.
ADHD hefur í för með sér fyrir marga að þeir upplifa hluti afar sterkt og hafa um leið litlar hömlur á viðbrögðum sínum við upplifuninni. Reiðin fær þá útrás kröftuglega, jafnvel langt umfram tilefni. Mörg okkar reiðast oftar en við vildum og segjum þá orð sem við sjáum eftir eða gerum aðra óafturkræfa hluti. Við þurfum ekki fyrst og fremst á sálgreiningu að halda heldur aðferðum til að beisla reiðina. Við þurfum góð ráð sem virka.
Nokkur slík er að finna í bókinni The Survival Guide for Kids with ADD or ADHD eftir dr. John F. Taylor.
Ráðin gagnast ekki bara börnum heldur líka fullorðnum. Hér er gott ráð úr bókinni: Ímyndaðu þér að þú eigir þín eigin sérhönnuðu umferðarljós. Þau segja til um hvernig þér líður og hvernig þú eigir að bregðast við. Ef þú ert í erfiðri aðstöðu skaltu nota umferðarljósin þín til að átta þig hvort líðan þín er græn, gul eða rauð og bregðast við í samræmi við það. Ef þú ert róleg eða rólegur og finnur fyri öryggi er líðanin GRÆNT LJÓS, það merkir að þú sért í öruggum aðstæðum og getir haldið áfram að gera það sem þú ert að gera. Ef þú finnur að þú ert að verða æst eða æstur er líðanin orðin GULT LJÓS og þá þarftu að staldra við og hægja á þér. Þetta er í lagi í augnablikinu en þú gætir misst þig ef þú heldur áfram. Andaðu djúpt og segðu við sjálfa/n þig: Ég er við stjórnvölinn. Ef þú ert orðin/n reið eða reiður skaltu hugsa: RAUTT LJÓS. Það merkir stopp, loka munninum, snúa sér við og fara.
Hér koma tvö aukaráð (ekki úr bókinni): 1. Hugsa um þig og manneskjuna sem þú ert reiður eða reið við í fyndnum aðstæðum. Húmor slær á reiði. 2. Halda dagbók yfir það þegar þú reiðist. Hverjar voru kringumstæðurnar? Hverju reiddistu? Smám saman skýrist myndin af því hvenær, hvar, hverju og hverjum þú reiðist og þá (þegar maður þekkir skrímslið persónulega) verður auðveldara að draga úr styrkleika reiðiviðbragða.
ADHD | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ADHD blogg - nýtt
Mánudagur, 13. október 2008
Kæru vinir með ADHD greiningu og þið sem hafið ekki fengið greiningu en teljið að þið fyllið flokk ADHDara. Ef þið sjáið þennan póst vona ég að þið látið það berast að stofnað hefur verið ADHD blogg sem ætlað er að vera vettvangur fyrir allt sem tengist ADHD, umfjöllun um menntun, úrræði, líðan, starfsframa, fjölskyldumál og fleira. Markmiðið er að setja inn nokkrar færslur í viku með alls konar gagnlegu og umhugsunarverðu efni.